Safnasafnið

Harpa hefur haft annan fótinn í Safnasafninu undanfarin ár.

Safnasafnið var stofnað 1995 af Magnhildi Sigurðardóttur og Níelsi Hafstein, Þinghúsinu á Svalbarðsströnd. Með þeim í stjórn eru myndlistarmennirnir Harpa Björnsdóttir, Unnar Örn J. Auðarson og Margrét M. Norðdahl, öll búsett í Reykjavík.
Safnasafnið
Safnasafnið

Safnasafnið annast fjölbreytt lista- og menningarstarf sem hefur vakið drjúga athygli, heima og erlendis. Það er með samlegðaráhrifum eitt af þrem mikilvægustu listasöfnum þjóðarinnar. Þessi ánægjulega staðreynd er grundvölluð á bjargföstum vilja og markvissri skipulagðri landssöfnun hugsjónafólks sem horfði uggandi til þess að alþýðumyndlist þjóðarinnar glataðist, og hefði tvímælalaust gert það að mestu ef þeirra hefði ekki notið við.

 

Um 5.000 listasverk eru í vörslu safnsins, búin til af ýmsu tilefni á 40 ára tímabili, í ólíkum stílum og myndhugsun, einnig tugþúsundir gripa sem settir eru upp í sérdeildum eða notaðir á sýningum til að skerpa á myndhugsun eða ögra gestum safnsins.