Um Hörpu

Harpa Björnsdóttir er fædd 13. júlí, 1955 á Seyðisfirði. Hún stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík, Iðnskóla Vestmanneyja, Háskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskóla Íslands, en þaðan lauk hún námi 1982 úr nýlistadeild. Dvaldi hún við nám og störf á Írlandi og í Danmörku á árunum 1980 – 1982 og hefur dvalist á vinnustofum í Frakklandi, Finnlandi,  Danmörku, áÍtalíu, Írlandi, Spáni og Bali, en hefur lengst af haft fasta búsetu í Reykjavík.

Harpa hefur haldið 28 einkasýningar en sú fyrsta var í Gallery Gerly, Kaupmannahöfn 1984. Hún hefur haldið einkasýningar á Kjarvalsstöðum, í Gallerí Borg, Hafnarborg, Galleríi Sævars Karls, Gallerí Sólon Íslandus, Slunkaríki,á Sjónarhóli Gerðubergs og víðar, og eins sýnt á óhefðbundnum sýningarstöðum eins og í Gallerí Glugga Austurstræti 8, Gallerí Glugga á Akureyri og ástrætisvagnaleið nr. 3 – Nes-Háaleiti. Harpa hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér á landi og erlendis frá árinu 1982, m.a. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Eistlandi og Englandi. Einnig tekið þátt í alþjóðlegu snjóhöggsmóti í Svíþjóð og alþjóðlegu tréskúlptúrmóti á Ítalíu.

Harpa hefur hlotið starfslaun listamanna auk annarra viðurkenninga og styrkja og verk eftir hana eru í eigu safna, stofnana og fyrirtækja. Hún hefur setið í Stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna, í fulltrúaráði Listahátíðar, verið formaður Íslandsdeildar Norræna myndlistarbandalagsins og er sem stendur í stjórn Nýlókórsins og Safnasafnsins. Hún hefur tekið að sér ýmis störf í þágu myndlistarmanna; sett upp sýningar, skrifað greinar, skipulagt málþing, ritstýrt tímaritum og haldið erindi um ýmis málefni. Var myndlistarráðunautur í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi 1993-1994, 1997-1998, 2005-2006, verkefnisstjóri Menningarnætur í miðborg Reykjavíkur 1997 og 1998 og  framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík 2000.

Harpa hefur unnið í margvísleg efni í gegnum tíðina og  leitast við að nota þann efnivið sem hentugur er hverju sinni og hæfir viðfangsefninu; má þar nefna málverk,vatnsliti og grafík, einnig skúlptúra úr tré og bronsi, myndbandsverk, ljósmyndaverk og innsetningar. Form, litur og texti og samspil þessara þátta hafa iðulega sett svip sinn á verk hennar, þar sem hefur í gegnum árin mótast persónulegt táknmál.