Guerilla Girls á Íslandi

Svarthvítu Guerilla Girls plakötin frá 1985-1990 voru sýnd í Nýlistasafninu í apríl 1994. Að sýningunni stóðu Erla Þórarinsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Harpa Björnsdóttir og Svala Sigurleifsdóttir. Þessi sýning hafði ferðast um Norðurlöndin og verið boðin hingað en ekkert safn hafði áhuga.

Harpa - Guerilla girls
Vegna tengsla Erlu við Svíþjóð fréttum við af þessu og ákváðum að þessi sýning mætti ekki framhjá okkur fara. Við öfluðum styrkja og unnum í sjálfboðavinnu, þýddum m.a. alla texta á plakötunum og sýndum hliðar við.
En það sem var mikilvægast, var að við gerðum úttekt á stöðu íslenskra myndlistarkvenna á þessum tíma. Hvatinn að því má segja að hafi verið eitt plakatið frá Guarilla Girls, en á því stóð „It´s even worse in Europe“. Það fannst okkur fráleitt, en rannsókn okkar leiddi því miður annað í ljós. Á myndinni hér að neðan má sjá hluta af íslensku úttektinni á bak við okkur. Hún vakti reiði margra í menningar- safna- og listageiranum. En það er öruggt að hún hafði áhrif, til dæmis að loks var sendur kvenkyns listamaður sem fulltrúi okkar á Feneyjabienalinn, Steina Vasulka.
Nú eru liðin ríflega 20 ár og svo sannarlega hefur flest breyst til betri vegar, alls konar jafnréttisreglugerðum síðar og fleiri augum sem opnast …..en alltaf eitthvað eftir samt…… Ég gat ekki varist því að hugsa á fyrirlestrinum að forsvarsmenn Listahátíðar hefðu nú átt að leiða okkur saman, górillurnar, það hefði t.d. verið forvitnilegt að ræða við Guerilla Girls um stöðuna hér, og hvort þeim finnist að það sé ennþá allt miklu verra í Evrópu eða hvort við höfum tosast eitthvað áfram……
Guerilla 2