Thorsvaka í Safnasafninu

Thorsvaka verður haldin í Safnasafninu næstkomandi laugardag, 8. ágúst kl 14.

Hinn þjóðþekkti rithöfundur Thor Vilhjálmsson hefði orðið 90 ára þann 12. ágúst 2015 og heiðrar Safnasafnið minningu hans af þessu tilefni, auk þess að sýna úrval af myndlistarverkum hans; skissur, teikningar og málverk frá árunum 1964-2008.

Thor teiknaði og gerði myndverk alla tíð og oftar en ekki var náttúran sá hugmyndagjafi sem hann leitaði í. Stór hluti myndverkanna hefur aldrei verið sýndur áður og er, auk annars, einkar fróðlegt að sjá teikningar sem koma úr penna Thors á sama tíma og hann reit bækur sínar um Sturlungaöldina, þar sem má sjá fólk og hesta lifna í svörtu hrauni og hrjúfu landslagi. Þarna má meðal annars sjá teikningu af Guðmundi skálda, aðalpersónu skáldsögunnar Sveigs frá árinu 2002, og minnir „skáldi“ sá óneitanlega talsvert á Thor sjálfan.

Sýningarstjóri er Harpa Björnsdóttir

Thor Vilhjálmsson