Ásmundur Sveinsson: Vatnsberinn-Fjall+kona

Sýningin, Ásmundur Sveinsson: Vatnsberinn-Fjall+kona, verður opnuð í Ásmundarsafni laugardaginn 21. febrúar. Á sýningunni er þess minnst að á árinu 2015 eru 100 ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi, en það varð með konungsskipun 19. júní 1915. Hin kunna höggmynd Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn (1937), er þungamiðja og leiðarstef sýningarinnar. Sýningarstjóri er Harpa Björnsdóttir.

Vatnsberarnir í Reykjavík voru ein lægsta stétt fólks í mannvirðingum á sínum tíma. Um vatnsburðinn sáu bæði konur og karlar, þó heldur fleiri konur. Þrátt fyrir að starf vatnsberanna væri eitt hið minnst metna og lægst launaðasta í Reykjavík, mun það hafa verið eina starfið þar sem jafnrétti ríkti í launamálum. Ásmundur gerði höggmyndina Vatnsberann til að heiðra minningu vatnsberanna og túlka styrk þeirra og seiglu, við gerð hans hafði hann tröllslega fjallamyndun Íslands í huga.

Sumum Reykvíkingum þótti þó enginn heiður að höggmyndinni og hugmyndir um að staðsetja hana í miðbænum ollu langvinnum deilum á árunum 1948-1955 og ekki örgrannt um að væri pólitík blandið. Var Vatnsberinn meðal annars uppnefndur ófreskja og skrímsli með selshaus og hótað eyðileggingu. Seinna varð Vatnsberinn kyndilmerki á veggspjaldi kvennafrídagsins í Reykjavík 1975, þótti vera táknrænn fyrir sögu kvenna. Vitnar þetta um breyttan tíðaranda og breytilegt mat á listaverkum en ekki síður um hve stjórnmálamönnum getur orðið hált á því að reyna að stjórna listastefnum og fagurfræðilegu mati.

Það er vel þess virði að rifja þessa sögu upp, auk ljósmynda og sögulegra heimilda um vatnsberana. Á sýningunni verða ásamt Vatnsberanum önnur valin verk Ásmundar, í samtali við verk þeirra Örnu Valsdóttur, Daníels Magnússonar, Kristínar Gunnlaugsdóttur, Níelsar Hafsteins, Ólafar Nordal, Ragnhildar Stefánsdóttur og Sigurðar Guðmundssonar.Nýlókórinn flytur verkið „Klessulist“ eftir Hörpu Björnsdóttur á opnuninni undir stjórn Snorra Birgis Sigfússonar